top of page

MYNDBÖND ERU GAGNSLAUS FYRIR BYRJANDI FLUGUKASTARA

  • Writer: Jonas Magnusson
    Jonas Magnusson
  • Oct 22, 2025
  • 3 min read
Grímsárlax
Grímsárlax

Í starfi mínu voru gæða myndbönd ómetanleg. En ég hafði ekki neitt gagn af þeim fyrr en ég hafði lært og skilið grundvallaratriðin. Þá fyrst urðu myndböndin ákaflega verðmæt fyrir mig. Það er mjög torvelt að kenna byrjendum flóknar hreyfingar án undirstöðu í grundvallar þekkingu.


Við höfum öll séð á spjallrásum spurningu byrjenda – „hvernig get ég lært að kasta“. Ekki stendur á svörum. „Veiðibúðin x hefur fín myndbönd – þú lærir þetta eins og skot.“ Eða eitthvað í þeim dúr. Raunveruleikinn er að flestir flugukastarar gætu bætt sig umtalsvert.


Sé leitað á netinu – “fly casting videos” – þá koma milljónir myndbanda upp. Ég hef ekki skoðað öll og mun ekki gera það. Hinsvegar hef ég skoðað mjög mörg þeirra sennilega allt of mörg. Sú staðreynd að til eru svona mörg myndbönd bendir til að flest þeirra séu fremur slök. Hvers vegna er verið að framleiða svona myndbönd þegar er til er gæðaefni sem afgreiðir málið? „Heyrðu, ertu að segja að öll kennslumyndbönd séu gagnslaus?“ Nei, ég held því ekki fram. En ég held því fram að kennslumyndbönd séu gagnslaus fyrir byrjandi flugukastara, sem ekki eru búnir að læra og skilja undirstöðuatriði. Vegna hraðans sem er á stangartoppnum þá er ómögulegt fyrir byrjanda að sjá og skilja hvað gengur á. Við hægt kast þá er t.d. hraðinn á stangartoppnum 60 m/sek. Þegar byrjandi sér fallegt kast þá sér hann bara buginn á línunni og „vá hvað þetta er flott“ heyrist næst. Byrjandi skilur ekki hvaða hreyfingar mynda fallegan bug.


Ef kennslumyndbönd væru gagnleg fyrir byrjendur þá mundum við kasta – spila golf, – og …… (settu hvaða íþrótt sem er hérna) – eins og guðir. Því miður er raunin önnur. Ég tel að byrjandi hafi ekki gagn af myndbandi vegna þess að skilning vantar. Oft eru myndbönd þannig að kennari kastar vel en útskýringar hans passa ekki við hreyfingar hans, sem auðvitað leiðir til misskilnings. Til eru stöðluð hugtök um flugukast



og það væri gagnlegt ef þau væru notuð rétt af kastkennurum en svo er því miður ekki og sérlega ekki af myndbandaframleiðendum.


Auðvitað eru mörg myndbönd góð og sum framúrskarandi en flest eru léleg. Hverjar eru líkurnar á að byrjandi finni nothæft myndband í þessum graut? Þær líkur eru fremur slakar og því miður mun nemandinn lenda á slöku myndbandi og ef eitthvað lærist þá er það gagnslaust. Jafnvel myndbönd með góðu myndefni missa marks vegna þess að „súper stjarnan“, kynnirinn,  lætur móðan mása og gagnlegar ábendingar eru gersamlega kaffærðar í röfli út og suður. Það virðist vera öfugt samband milli gæða myndbands og lengdar þess. Sama gildir um fjölda orða sem eru notuð.



Kastað á strönd Florida
Kastað á strönd Florida

Gæða myndbönd sem eru nothæf má finna á vefsíðu Fly Fishers International. Þessi myndbönd eru stutt og hnitmiðuð og textinn er vel unninn.



Paul Arden hefur framleitt kennslumyndbönd sem eru mjög góð fyrir byrjendur og lengra komna.



Ég hef lært mjög mikið af þessum myndböndum eftir að ég hafði náð tökum á grundvallaratriðunum. Ég er ekki að halda því fram að þessar síður séu þær einu góðu. Hinsvegar eru þær þær bestu sem ég hef fundið fyrir byrjendur.


Jafnvel gæða myndbönd eru ekki nægjanleg vegna þess að engin endurgjöf (e. feedback) er möguleg fyrir nemandann, sem horfir á myndbandið og fer út að kasta.  Nemandinn telur sig vera að kasta samkvæmt guðspjallinu (myndbandinu) en er það ekki og skilur það ekki og endar engu betri en miklu gramari.


Hvað er til ráða? Augljóst að gagnlegra væri að snúa við ferlinu þ.e.a.s. mynda byrjandann og fá kennara til að fara yfir útkomuna og leiðrétta kastvillur.


Lang besta leiðin til að læra undirstöðuna er að fá sér tilsögn frá kastkennara með reynslu. En kastarar vilja fremur eyða peningum í stangir sem þeir kunna ekki að notfæra sér. Staðreyndin er að köstin eru ekki föl svo ekki reyna það en kastkennsla er sannarlega hjálpleg.



Comments


© 2023 by Every Jonah Has a Whale. Proudly created with Wix

bottom of page