VINSTRI EÐA HÆGRI SVEIGJA - RÖNG KASTSTEFNA
- Jonas Magnusson
- Sep 3, 2025
- 2 min read
Updated: Sep 10, 2025
Að halda beinni línu
Eitt sinn var að kenna meðlimum fluguklúbbsins míns þegar einn þeirra (rétthentur) spurði –„hvers vegna fer línan hjá mér í vinstri beygju í stað þess að leggjast beint?“ Örvhentur kastari með sama vanda hefur hægri beygju á línunni.
Þetta er nokkuð algeng kastvilla. Ég gerði þetta líka. Þessi galli er blessunarlega nokkuð auðveldur að lagfæra. Meðferðin er auðveld þegar greiningin liggur fyrir.

En hvers vegna sveigir línan svona? Þessi villa er vegna þess að kaststefnan er ekki bein.
Hvernig gerist það? Línunni er ekki kastað beint aftur heldur fer hún bakvið og til vinstri við kastarann, eins og myndin sýnir. Þetta gerist þegar kastari opnar úlnliðinn allt of mikið í láréttu plani og sendir línuna aftur í stórri sveigju. Þetta brýtur 180 gráðu regluna – bakkast og framkast skulu mynda beina línu. Jafnvel þó að línan sé nokkurn veginn bein í framkasti þá mun hún sveigja til vinstri. Línan þarf því að vera þráðbein.

Meðferðin er – veldu þér eithvað mark (runna, hríslu eða hvað sem er), sem er beint fyrir aftan þig og kastaðu þráðbeint aftur. Góð leið til að æfa þetta er að hafa beint reipi (hvaða lína sem er dugir) á jörðinni eins og A-B á myndinni. Kastaðu nokkrum bakköstum og láttu línuna lenda. Ef línan lendir vinstra megin við línuna þá þarf að lagfæra bakkastið. Á myndinni þá er A-B línan beina kaststefnan svo flugulínan má alls ekki að krossa A-B línuna. Sama gildir um framkastið, ekki krossa A-B línuna, ef það gerist þá sveigir línan til vinstri.
Við upphaf bakkasts þá eiga hliðar fluguhjólsins að vera lóðréttar.

Við lok bakkastsins þá eiga hliðar hjólsins enn að vera lóðréttar. Ef ekki þá ertu ekki að kasta í beinni línu eins og á myndinni fyrir neðan. Þessi snúningur á stöginni sendir línuna í boga aftur fyrir þig.

Fyrst velur þú mörk fyrir framan þig og aftan þig og ímyndar þér beina línu. Þú ert við þessa línu og láttu topplykkjuna ferðast í þessari beinu línu. Þegar það gerist þá leggur þú út línuna þráðbeina.
Ef ég get bara gefið þér eitt ráð – horfðu á bakkastið. Það er magnað hversu mikið má læra með því að horfa.
Hinsvegar eru til aðstæður þar sem þú vilt að línan sveigi þegar flugan er lögð út. Það er rétt hjá þér - það eru sveigköstin.







Comments