Veitt frá flatbytnu
- Jonas Magnusson
- Jan 8
- 3 min read
Setti þetta saman til að gefa lesanda innsýn í veiðar á „tidal flats“.
Veiði við strendur Florida hefur líklegast alltaf verið gjöful. Milli lands og Atlantshafsins austan megin og Mexíkóflóa vestan megin eru gjarnan löng rif, sem vernda ströndina gegn stormum og sjávargangi (e. barrier islands). Milli rifjanna og lands eru mjög víða grunnar flatir (e. tidal flats) þar sem sjávarfalla gætir. Á þessum flötum er grunt og þær hitna hratt og þar er því mikið líf. Fiskar koma inn á þessar flatir á flóðinu í fæðuleit. Síðan koma stærri fiskar sem elta minni fiska, en stundum er svo grunnt að stærð þeirra verður takmarkandi.
Til að geta veitt á flötunum var farið að nota litla báta, sem voru í kringum tuttugu fet að lengd, sem ristu mjög grunnt varla meira en eitt fett. Þessir bátar eru með utanborðsmótor sem auðvitað má lyfta upp úr vatninu.

Það lærðist fljótt að fiskar voru ekki samstarfsfúsir meðan mótorinn var í gangi. Þegar drepið var á vélunum fóru gædar að klifra upp á mótorinn með langan stjaka 25-30 fet. Stjakinn er svo notaður til að hreyfa bátinn. Í þessari hæð koma gædarnir auga á fisk fyrr en þeir sem neðar eru. Það fór sjálfsagt ekki vel með mótorinn að staðið væri ofan á honum tímunum saman og til að hlífa vélinni var byggður pallur yfir hann og þar standa gædarnir nú.

Veiðimaður stendur í stafni og hefur línuna niðri í bátnum eða í tunnu í stafni og skýtur henni út. Stundum eru notaðir pallar til að hækka stöðu veiðimannsins. Einnig eru nokkurs konar búr notuð til að styðjast við.

Við notum klukku til að gefa áttina – beint fram er kl. 12 – hornrétt á það er kl. 9 til vinstri og kl 3 til hægri. Gædinn sér fisk mun fyrr enda ofar. Þegar fiskur er innan kastfæris þá kemur „gefðu mér 60 feta kast kl 11“.

Stundum kemur kastarinn auga á fiskinn og auðvitað er það árangursríkara en stundum ber veiðimanninum bara að hlýða og fara eftir fyrirmælum. Við þurfum sólskin til að sjá fiskinn og því er best að fara undan sólu. Vindur er alltaf til staðar og stundum er bakhandskast eina leiðin. Eitt er alveg bannað en það er að láta fluguna fara yfir bátinn. Allir gædar hafa fengið í bakið (hnakkan, eyrun) stóra þunga flugu með tilheyrandi brasi.
Til að geta kastað 60 fet þá þarf lengd flugulínunnar utan topplykkju að vera nægjanleg til að hlaða stöngina hratt en ekki svo löng að hún lendi við utanborðsmótorinn eða stjakann sem gædinn heldur. Ef línan getur flækst þá mun hún gera það. Kastarinn þarf eins langa línu úti og mögulegt er. Lína tekin af hjólinu er einnig til reiðu ef skjóta þarf flugulínunni. Hún getur verið í körfu eða tunnu í stafninum eða neðar í bátnum sem kallast „cockpit“. Flugulína laus í bát getur orðið martröð. Auðvitað flækist hún og margir möguleikar eru í boði. Fremur stífar línur eru notaðar en þá eru flugu „hringirnir“ stærri og minni flækjur.

Oft eru fötur notaðar en þá verður að huga að staflanum. Milli línuhandarinnar og hjólsins þarf að vera viðbótarlína stöfluð rétt og tilbúin til notkunar sé hennar þörf. Þegar þessari línu er skotið þá þarf línan að byrja að fara út frá toppi staflans en alls ekki frá botni.
Dragðu út línu sem þú getur kastað og settu í „cockpit“ bátsins (eða tunnu/körfu). Lína sem þú ekki getur kastað getur flækst að óþörfu svo hún á að vera á hjólinu. Núna er staflinn öfugur - línan sem fyrst hreyfist er neðst sem er villa (sjá rauðan kross). Kastaðu nú allri línunni út og staflaðu henni og nú er rétt staflað og þú ert tilbúinn (græna merkið).








Comments