LENGD LÍNU HALDIÐ Á LOFTI
- Jonas Magnusson
- Sep 24, 2025
- 2 min read

Sibbi kastar – talsverð gola niður ánna (mynd að ofan). Vindurinn hindrar línuna í að verða bein í bakkastinu þannig að línan líkist hjartalínuriti og er ekki alveg bein. Sibbi er úrvalskastarari og kemst upp með þetta, en hann er á mörkum þess sem hann getur haldið á lofti þegar vindurinn er svona í bakið þ.e.a.s. það er torvelt að hafa línuna beina í bakkastinu. Þetta þýðir að það er slaki í línunni þegar framkastið byrjar.
Lengd línu haldið á lofti
Var að kenna klúbbfélögum um daginn og tók eftir villu sem nokkrir miðlungskastarar gerðu sig seka um. Fölsku köstin voru bara lagleg hjá þeim en skyndilega misstu þeir stjórn á línunni rétt fyrir síðasta kastið. Ég hef líka lent í þessu. Allir kastarar hafa ákveðna lengd af línu sem þeir geta haldið á lofti þegar þeir falsk kasta. Byrjendur ráða ekki við langa línu en smán saman lengist línan sem þeir ráða við (e. their carry). Keppniskastarar (e. distance casters) geta og verða að halda á lofti 100 fet af línu til að geta kastað 120 fet eða meir. Þannig er línulengd sem hver kastari getur haldið á lofti mjög einstaklingsbundin. Við æfingu lengist auðvitað línan sem halda má á lofti.
Aftur til kastaranna okkar – það kom í ljós að þeir létu smávegis af línu renna út bæði í fram- og bakkasti (e. slipping line). Þeir voru þannig að auka lengd línunnar sem þeir héldu á lofti og flestir gerðu sér það ekki ljóst. Að lokum voru þeir með lengri línu úti en þeir réðu við. Þegar það gerist þá næst línan ekki bein hvorki fram né aftur og stjórn á línunni er því farin. Þeir voru sem sé að bæta við slaka í línuna með þekktum afleiðingum.
Lækningin hér er að kenna hverjum og einum hvað mikið af línu hann/hún ræður við. Það er fremur einfalt. Haltu línu á lofti og lengdu í smávegis þar til þú missir stjórn á línunni - dragðu svolítið inn af línunni og merktu línuna þar með tússpenna. Þannig finnum við hversu langa línu hver einstaklingurinn getur haldið á lofti. Svo má hafa smávegis af línu tilbúna sem við getum skotið í lokakastinu. Þegar mínir menn áttuðu sig og yfirstigu ekki sín takmörk og héldu á lofti línu sem þeir réðu við og skutu síðan viðbótarlínu þá skyndilega köstuðu þeir lengra en þeir höfðu áður gert.







Comments