KASTIÐ ER EKKI FALT
- Jonas Magnusson
- Oct 8
- 3 min read

Að koma sér upp græjum til fluguveiði kostar. Kíkjum á útbúnaðinn. Annars vegar þurfum við flugu, taum og undirlínu. Flugan, taumurinn, taumefni og undirlínan kosta kannski 10.000 kr..


Flugulína gæti kostað um 20.000 kr.

Vissulega þurfum við fluguhjól og flugustöng og stöng kostar kannski 170.000 kr. og
fluguhjól 100.000 kr..


Þetta er bara gróf ágiskun en við getum verið sammála um að útbúnaðurinn er hreint ekki gefinn.
Heildarkostnaður fyrir útbúnað er í hundruðum þúsunda. Flestir fluguveiðimenn eiga fleiri en eina stöng svo kostnaðurinn gæti slagað í milljón krónur þegar allt er talið.
Flugur, taumar og flugulínur slitna við notkun og því þarf að endurnýja búnað eins og gengur. Stangarblætið er auðvitað líka staðreynd og nýja stöngin sem kastar þröngum bug lengra en aðrar og er nákvæmari en allt sem áður hefur sést er svo lokkandi. Nýja stöngin læknar alla kastkvilla – er það ekki? Svo eru það hjólin maður lifandi. Stórar spólur (e. large arbor), lokuð bremsa, skreytt með hreistri og við bara eigum það svo mikið skilið.
Síðan þarf veiðileyfin sem alls ekki eru gefin. Og dýrar ár og leiðsögumenn eru efni í martraðir. Ekki má gleyma hótel kostnaði sem er umtalsverður. Læt alveg vera að kíkja á kostnað vegna fatnaðar o.s.frv.. Fólk leggur út fyrir þessu öllu og mætir svo borubratt í veiði og kann lítið að kasta og kemur flugunni ekki út!
Flestir kastarar eru fremur slakir og tína má til ástæður fyrir því en staðreyndin er samt sú að flestir kastarar gætu bætt sig umtalsvert. Ef einhver vindur er til staðar þá versnar staðan til muna því fáir leggja áherslu á að æfa sig í vondu veðri. Við vitum vel hvernig á að snúa sér og kasta í vindi og höfum vitað lengi.
Aðalástæðan fyrir slökum köstum er sú staðreynd að flestir leita sér ekki kennslu. Reynsla mín af kennslu er sú að hægt er að breyta miðlungs kastara í góðan kastara með þremur kennslustundum. Grunnatriði flugukasts eru ljós og þau munu ekki breytast neitt og þannig getur góð tilsögn enst lífið út.
Þegar litið er til kostnaðar við „græjurnar“ þá er erfitt að gera ráð fyrir því að kostnaður við tilsögn sé fráhrindandi. Þrátt fyrir það er fátítt að menn hefji sinn feril með því að fá sér tilsögn. Auðvitað eru til afburðakastarar sem hafa sjálfir grafið upp þekkingu og lært sjálfir að kasta en þeir eru fáir. Margir fá tilsögn hjá nágranna og vinum eða veiðifélagi. Slík kennsla er þó sundurlaus og handahófskennd og er hvorki grundvölluð á grundvelli þekkingar né ákveðinnar nálgunar við kennslu
FFI rekur kennslu prógramm fyrir þá sem vilja verða kastkennarar (e. Casting Instructors) þar sem allir læra sömu hlutina og taka sama staðlaða prófið hvar sem er í heiminum. Þessi nálgun hefur gefist vel og tryggir að kastkennarar hafa alir sömu stöðluðu undirstöðuna og þegar prófinu er náð þá er gefið út vottorð þess efnis.
Þegar ég byrjaði í þessu prógrammi (ég var reyndar alveg sæmilegur kastari) þá kom í ljós að ég hafði ekki græna glóru um alls kyns staðreyndir sem sem voru á námsskránni. Auðvitað vissi ég eitthvað eftir 30 ára fluguveiði en ekki nándar nærri eins mikið og ég hélt. Eftir að hafa kynnt mér námsefnið þá jókst skilningur minn á kastfræði (e. casting mechanics) og ég tók miklum framförum í að kasta og er alltaf að bæta við mig. Að kasta flugu er íþrótt sem við getum orðið betri í með aldri! Nemendur mínir eru nú fljótari að ná kastinu og það er auðveldara fyrir mig að kenna og greina kastkvilla eftir að ég varð vottaður kastkennari.
Að endingu munið að auki við kastið er ekki hægt að kaupa sér hnúta.






Comments