KASTAÐ Í VINDI
- Jonas Magnusson
- Oct 1
- 3 min read

Það gerist stundum, að logn er í veiðistað, en það stendur aldrei lengi. Fluguveiðimenn vilja gjarnan hafa flugugáru en ekki logn. Það sem við óskum okkur og það sem við fáum er sjaldnast það sama. Oftast nær er meiri eða minni vindur í veiðistað en við hefðum kosið. Auðvitað viljum við fá vind sem gárar vatnið svolítið og einnig að hann blási úr ákveðinni átt. Hversu oft gerist það að við höfum passlegan vind úr réttri átt? Það gefur því auga leið að við verðum að læra að eiga við vind úr öllum áttum.
Hvaða áhrif vinds erum við að fást við? Kjörvindur er þegar vindur kemur frá vinstri til hægri og litlar líkur eru á að flugan slasi okkur (fyrir rétthenta). Þegar vindur kemur frá hægri til vinstri þá ýtir hann flugulínunni og flugunni að rétthentum kastara, og flugan getur valdið slysi. Vindur í bakið gerir bakkast erfiðara og torvelt getur orðið að rétta úr línunni og slaki verður til staðar fyrir framkast. Mótvindur er auðvitað vondur fyrir framkast og blæs línu taum og flugu aftur.
Ferskvatnsveiðar
Þegar veitt er í straumvatni þá má yfirleitt finna nokkra staði sem eru í einhverju skjóli. En þegar veitt er í vötnum þá er miklu minna um skjól og vindur getur leikið kastara grátt. Ef vindur er umtalsverður þá er til bóta að hafa hraða stöng. Núðlur (mjúkar stangir) eru ekki heppilegar.
Saltvatnsveiðar
Það er alltaf meiri vindur á sjó og þar er ekkert skjól. Vindurinn er stöðugur og afar sjaldan er logn. Þegar veitt er frá bát þá veltur hann alltaf þó lítið sé og það hefur áhrif á kastið. Þú nærð ekki lengstu köstum frá bát. Fyrir slíkar veiðar þarf æfingu. Flugurnar sem eru notaðar eru oft mjög stórar. Fiskur er á sífelldri hreyfingu og það þarf að kasta fyrir framan þá og lengra og draga fluguna yfir áætlaða ferðalínu þeirra. Þú verður að kunna að tvítoga (e. double haul) og skjóta línu út. Þú þarft að geta kastað a.m.k. 50 feet í vindi annars áttu ekkert erindi í saltið.
Hraðar stangir eru notaðar í þessa tegund af veiðum. Þú þarft/verður að æfa köst áður en þú mætir í saltið annars verður þér ekki ágengt.
Aðstæður
Þessar leiðbeiningar eru skrifaðar fyrir rétthenta kastara en örvhentir eru ekki í neinum vandræðum að skilja þetta.
Krossvindur
Frá vinstri öxl að hægri öxl – þetta er staðan sem best er að kasta í.

Frá hægri öxl til vinstri axlar – nú getur flugan skollið á okkur og valdið slysi (alltaf nota gleraugu). Þessi vindátt er best fyrir örvhenta.

Reyndu lárétt kast sem heldur flugunni lengra frá þér.
Kastaðu frá vinstri öxl. Stangartoppurinn þarf að vera undan vindi en hægri hendi má vera hægra eða vinstra megin. Er fremur veikt kast - dugar í silungi en ekki salti.
Kastaðu með vinstri hendi. Mjög mikill ávinningur er að geta kastað með báðum höndum.
Snúðu þér við og kastaðu út með bakkasti. Þetta er kraftmesta aðferðin. Fram og bakköst eru samhverf þannig að þetta lærist fljótt.
Mótvindur
Hafðu bakkastið mun hærra og framkastið lægra þ.e.a.s. þú hallar kastlínunni (e. trajectory) niður að framan. Því verður að kasta hátt aftur á við vegna 180 gráðu reglunnar. Síðan kastarðu niður að yfirborði þannig að vindurinn hefur minni tíma til að bera fluguna af leið.

Tog við bakkast gæti verið óþarft en er algerlega ómissandi við framkastið.
Mjög stífur mótvindur – togaðu (e. haul) en skjóttu línunni ekki uppí vindinn. Þá verður miklu meiri orka til að koma flugunni út en ögn styttra kast.
Mikill hraði á línunni er nauðsynlegur og bugurinn þarf að vera oddhvass til að kljúfa inn í vindinn.
Meðvindur
Miðaðu bakkastinu beint inn í vindinn með oddhvössum bug og togaðu af afli. Lína sem fer beint inn í vindinn hefur minnsta loftmótstöðu. Framkastið má síðan vera mun hærra því vindurinn getur borið línuna út
Opnaðu buginn og láttu vindinn hjálpa þér við framkastið.
Tog (e. haul) er nauðsynlegt í bakkastinu en stundum óþarft í framkastinu.







Comments